Þetta haustið hefur Flóra, Félag mannauðsstjóra á Íslandi tileinkað Mannauðsdaginn, þeim áskorunum sem felast í innleiðingu stefnu, breytingastjórnun og því að byggja upp fyrirtækjamenningu sem stuðlar að betri árangri fyrirtækja. Yfirskrift Mannauðsdagsins er “Breytingastjórnun – Eru allir um borð?” og er ráðstefnan haldin föstudaginn 9. október í Hörpunni.

Þann 11.-12. nóvember mun CMI (Change Management Institute) halda tvær ráðstefnur tileinkaðar innleiðingu breytinga sem fara fram í í London annarsvegar og í Sydney hinsvegar.  Yfirskrift þessara ráðstefna er Change in the Age of Disruption.  Við sem eigum hvorki leið til London né Ástralíu getum hinsvegar fylgst með báðum ráðstefnum í gegnum netið gegn því að greiða rúmlega 10.000 íslenskar krónur.

Holger Nauheimer, stofnandi Berlin Change Days á ACMP ráðstefnu í Brussel 17. september 2015

Þeir sem vilja hinsvegar leggja land undir fót í nóvember þá eru Berlin Change Days haldnir í 7. skiptið í Berlín 6. – 8. nóvember nk.  Yfirskriftin er: From Change to Transformation, or how to Intervene with Passion and Compassion, þar sem breytingar á umbrotatímum eru í forgrunni.  Þann 17. september sl. sótti ég Evrópuráðstefnu ACMP (Association for Change Management Professionals) í Brussel og kynntist þar Holger Nauheimer sem er upphafsmaður Berlin Change Days. Af spjalli okkar og því sem ég hef lesið mig til um viðburðinn og hef heyrt frá öðrum þá eru Berlin Change Days einstaklega áhugaverður viðburður þar sem formið er mjög ólíkt því sem venjulega er notað á ráðstefnum og þess í stað lögð mikil áhersla á lýðræðisleg fundaform, samræður og miðlun á milli þátttakenda.