Niðurstöður eru gefnar út í 250 síðna bók

Niðurstöður könnunar um bestu aðferðir í breytingastjórnun 2014 voru gefnar út af Prosci rannsóknarfyrirtækinu sl. vor. Um er að ræða 250 síðna bók þar sem koma fram margskonar upplýsingar sem nýtast breytingaleiðtogum í starfi og niðurstöður sem snúa að þróun og stöðu breytingastjórnunar í fyrirtækjum og stofnunum. Þegar þátttakendur voru spurðir hvað þeir teldu skila mestum árangri við innleiðingu breytinga þá eru þetta þeir sjö þættir sem oftast voru nefndir:

1) Virkni og sýnileiki skilgreinds ábyrgðaraðila (s.s. æðsta stjórnanda) sem kemur fram sem talsmaður breytinganna.

2) Stuðst við skilgreint breytingastjórnunarlíkan.

3) Fjármunum varið í innleiðinguna og starfsfólk fær tíma til að sinna breytingunni.

4) Tíð og opin samskipti við starfsfólk og hagsmunaðila um breytinguna og ástæður hennar.

5) Virkni og þátttaka starfsfólks í breytingastarfinu.

6) Virk verkefnastjórnun sem er samtvinnuð vinnu með mannlega þáttinn við innleiðingu breytinga.

7) Virkni og stuðningur millistjórnenda við breytingastarfið.

Í bókinni er svo farið nánar í hvern þátt og veitt leiðsögn um hvernig ná má þessum sjö þáttum fram. Þar eru einnig svör þátttakenda við tugum annarra spurninga sem snúa að árangursríkri innleiðingu breytinga. Þetta er í áttunda skiptið sem Prosci leggur fyrir sambærilega könnun, en sú fyrsta var gerð 1998. Niðurstöðurnar sem greint er frá hér að ofan eru í takt við fyrri niðurstöður – þó hefur mikilvægi þess að samtvinna verkefnastjórnun og breytingastjórnun (sem skilgreind er sem mannlegi þátturinn við innleiðingu breytinga) færst ofar á 2014 listann.  Þátttakendur nú voru 822 talsins frá ólíkum löndum og úr ólíkum atvinnugeirum.  Bókina má kaupa á heimasíðu Prosci og kostar hún 349 USD eða um 40.000 kr. Heimildir:  Best Practices in Change Management, 2014 og Executive Overview 2014.