Mikið hefur verið um sameiningar fyrirtækja og stofnana undanfarna áratugi. Deloitte gerði í árslok 2014 könnun meðal 800 stjórnenda í Bandaríkjunum um hvað gert er til að ná fram samþættingu (e. integration) og árangursríkri sameiningu fyrirtækja.  Helmingur stjórnendanna starfa á einkamarkaði og hinn helmingurinn hjá opinberum fyrirtækjum og stofnunum sem hafa verið sameinuð.

Helstu niðurstöður könnunarinnar

Screenshot 2016-05-13 12.33.34Helstu niðurstöður sem gefnar voru út á síðasta ári voru að 30% töldu að samþætting starfseminnar hafi ekki verið árangursrík. Hvað varðar samlegðaráhrif sögðu 30% svarenda að þeir hafi náð betri árangri en markmiðin sögðu til um en 18% sögðu að samlegðaráhrif hefðu ekki náðst og 10% vissu ekki hvort markmiðum hefði verið náð.

Fjórðungur svarenda svöruðu að það væri ekki til formleg stefna um samþættinguna og einn fimmti sagði að þeir hefðu ekki verið tilbúnir í verkefnið

Árangursríkar sameiningar fyrirtækja

Stjórnendurnir töldu að þegar góður árangur hefði náðst þá mætti rekja það til virkrar þátttöku öflugs leiðtoga, að stjórnendur úr báðum fyrirtækjum tækju virkan þátt í framkvæmd sameiningarinnar sem og gerð hefði verið ítarleg áætlun sem oft tók til þess að mynda öflugt sameiningarteymi og upplýsingamiðlunar og samskipta.  Í könnuninni kom fram að þegar leitað var til utanaðkomandi ráðgjafa þá náðust 75% samlegðaráhrifa á fyrsta árinu.

Ástæður þegar illa gengur og lærdómur

Þegar illa gengi þá mætti rekja það til þess að hlutirnir hefðu gengið of hægt, að undirbúningur hefði verið ónógur og til óvæntra atburða í sameiningarferlinu sem og fyrir eða eftir sameiningu.

Svarendur sögðu að ef þeir stæðu aftur frammi fyrir sameiningu þá væri lykilatriði að flýta og áfangaskipta samþættingunni, leggja mikla áherslu á upplýsingamiðlun og samskipti og velja vandlega í sameiningarteymið.

Menning og upplýsingamiðlun

Hvað varðar hvernig  tilkynnt var um sameininguna kom fram að algengasta form upplýsingamiðlunar væri tölvupóstur (50%) en áhrifamesta aðferðin væri að kalla starfsfólk á fund þar sem æðsti stjórnandi (CEO) tilkynnti um sameininguna.

Þá var spurt um mikilvægi þess að samþætta menningu og sögðu 76% það vera frekar eða mjög mikilvægt en 62% svaranda töldu að þau hefðu náð frekar eða mjög miklum árangri í því verkefni. Það sem oftast var valið hvað þetta varðar var að upplýsingamiðlun var gagnsæ og kom tímanlega fram, viðtöl voru tekin við starfsfólk beggja fyrirtækja  til að skilja þeirra þarfir og áhyggjur sem og að haldið var í hefðir og venjur beggja fyrirtækja.

Árangur betri en almennt er talið

Niðurstöður könnunarinnar er nokkuð áhugaverð og sérstaklega er gott að sjá að flökkusagan um að 70% af breytingum mistakist er ekki staðfest meðal þessa hóps. Ekki eru þó upplýsingar um að hversu miklu leyti sé hægt að heimfæra þessar niðurstöður á sameiningar fyrirtækja almennt og áhugavert væri að kanna stöðuna hér á landi. Sameiningar fyrirtækja og yfirtökur hafa verið miklar í Bandaríkjunum og hefur þannig skapast reynsla og þekking. Kona skyldi ætla að sameiningar fyrirtækja verði árangursríkari með aukinni þekkingu og reynslu allra aðila. Staðan er oft vissulega önnur þegar stjórnendateymi hafa enga fyrri reynslu af sameiningum og þá ríður á að sækja sér þekkingu og ráðgjöf. Í niðurstöðuskýrslunni eru frekari ráðleggingar um árangursríka sameiningu fyrirtækja og stofnana þannig að ég hvet áhugasama til að kynna sér hana. Til eru fleiri kannanir um árangur af sameiningum fyrirtækja  sem ég mun fjalla um síðar.

Heimild Integration Report 2015:Putting the pieces together.Deloitte 2015