ADKAR® aðferðafræðin er þróuð af Jeffrey M. Hiatt og PROSCI® sem rannsóknafyrirtækinu á sviði breytingastjórnunar. Prosci hefur frá 1998 lagt fyrir umfangsmiklar kannanir um innleiðingu breytinga og gefið út niðurstöður í bók sem kemur út annaðhvort ár. ADKAR Byggt á þessum niðurstöðum meðal annars hefur Jeff Hiatt þróað ADKAR aðferðafræðina um hvernig unnið er með starfsfólki að breytingum á árangursríkan hátt.  Í breytingum þarf sérhver einstaklingur sem breytingin hefur áhrif á að því breyta hvernig hann vinnur vinnuna sína, taka upp nýjar venjur, breytta starfshætti í breyttu vinnuumhverfi.  Í ADKAR er áherslan á einstaklinginn og til þess að breytingar geta orðið þá þarf eftirfarandi að vera til staðar:

Awareness – skilningur   Skilningur starfsmanns á eðli breytinganna, hvers vegna þær eru gerðar og áhættan/afleiðingar við það ef ekki eru gerðar breytingar. Einnig upplýsingar um innri og ytri þætti sem þörfin fyrir breytingar byggir á, sem og hvaða áhrif breytingin hefur á hvern einstakling í hópnum. („wiifm“ ensk skammstöfun fyrir “hvaða áhrif hefur þetta á mig”)

Desire – löngun Löngun starfsmanns til að styðja og taka þátt í breytingunum. Þessi þáttur snýr að þeim leiðum/afstöðu sem starfsmaður velur að fara í breytingaferlinu og hefur eðli breytinganna, persónulegir hagir starfsmanns og innri hvatar sérhvers starfsmanns áhrif á þennan þátt.

Knowledge – þekking Starfsfólk hafi upplýsingar, fái þjálfun og menntun sem er nauðsynleg til að vita hvernig á að breyta. Þekking innifelur upplýsingar um hegðun, ferla, tæki, tækni kerfi, hæfni, hlutverk og vinnuaðferðir sem gert er ráð fyrir til að innleiða breytinguna.

Ability – hæfni Hæfnin til að starfa skv. breyttu skipulagi og hrinda breytingunni í framkvæmd. Snýst um að nýta þekkinguna til að framkvæma og ráðast í aðgerðir.  Hæfni er náð þegar starfsmaður eða hópur hefur sýnt fram á getuna til að vinna skv. breyttu skipulagi með þeim árangri sem til er ætlast.

Reinforcement – hvatning Innri og ytri þættir þurfa að styðja við breytinguna. Ytri hvatning (styrking) gæti falið í sér viðurkenningu, umbun og viðburði sem eru tengd við það að hrinda breytingunni í framkvæmd. Innri hvatning gæti falið í sér innri ánægju með það að ná árangri eða annað það sem skiptir starfsmanninn  máli og næst fram með breytingunni.

Orðið ADKAR  er myndað út frá fyrsta staf í hverjum þætti.  Samkvæmt aðferðinni þá þarf fyrri þáttur að vera uppfylltur áður en hægt er að uppfylla þætti sem á eftir koma.

Undir hverjum þætti aðferðafræðinnar eru nokkrar matsspurningar sem hægt er að leggja fyrir starfsfólk í formi könnunnar eða viðtals.  Á grunni þeirra niðurstaðna er hægt að meta hver staðan er hægt að bregðast við s.s. með betri upplýsingamiðlun um forsendur breytingarinnar og í hverju hún felst, stofna til samtals við starfsfólk um líðan og þeirra hlut í breytingunni, bjóða kennslu og þjálfun og huga að þáttum sem snúa að umbun og hvatningu.     Á morgun föstudaginn 15. janúar kl 11-12 er í boði vefnámskeið um notkun aðferðafræðinnar hjá CMC Partnership í Bretlandi. Það kostar ekkert að taka þátt en nauðsynlegt er að skrá sig

ADKAR mynd

Þættirnir í ADKAR aðferðinni

ADKAR hefur náð mikilli útbreiðslu undanfarin ár enda ágætis aðferðafræði og PROSCI hefur verið duglegt í að koma henni á framfæri með markaðsstarfi,  ókeypis vefnámskeiðum og  námskeiðum sem gefa fólki vottun og réttindi til að nota aðferðina.